Dílaskóf
Dílaskóf er stór skóf með dökka díla á yfirborði skófarinnar, sem myndaðir eru af hnyðlum blágrænna Nostoc-þráða. Á neðra borði hefur hún allskýrt æðanet sem aðgreinir hana frá flannaskóf.
Þalið er stórt í heild 10-20 sm í þvermál, bleðlar ávalir, 2-4 sm breiðir, jaðarinn uppbrettur, stundum lítið eitt hrokkinn. Efra borðið er fagurgrænt í vætu en grágrænt eða grábrúnt í þurrki, alsett dökkum, blágrænum eða svörtum, eins til tveggja mm stórum hnyðlum sem eru dreifðar eins og dökkir dílar um allt efra borð skófarinnar. Yfirborð skófarinnar er annars slétt, jafnvel ofurlítið gljáandi, með örstuttum hýjungi út við jaðarinn. Neðra borðið er ljósbrúnt meðfram jaðrinum, nær miðju með skýrum, dökk brúnum eða nær svörtum æðum og áberandi hvítum svæðum á milli æðanna. Rætlingar eru venjulega brúnir, í tættum brúskum. Askhirzlur eru 4-8 mm í þvermál, sitja á mjóum hliðarbleðlum, rauðbrúnar að ofan en ljósar og án barkarlags á neðra borði, eða með sundurlausum barkarvörtum út við jaðarinn. Askgróin eru glær, 38-70 µm á lengd en 3,4-5 á breidd, ofurlítið bogin, gerð af fjórum frumum, um það bil tífalt lengri en breið. Askþekjan er brún, askbeðurinn glær, 100-120 µm þykkur, undirþekjan glær. Dílaskófin vex einkum yfir mosa á jarðvegi í mólendi, mögru graslendi, kjarri og fjallshlíðum. Hún er mjög algeng um allt land frá láglendi upp í 1300 m hæð.
Þalsvörun: K+ gulbrún (barkarlag), miðlag K-, C- eða C+ ljósbleik, KC-, P-.
Innihald: Tenuiorin, methylgyroforat, gyrofórinsýra og triterpensambönd.
Dílaskóf líkist mest flannaskóf, en þekkist frá henni á skýru æðaneti á neðra borði.
Þalsvörun: K+ gulbrún (barkarlag), miðlag K-, C- eða C+ ljósbleik, KC-, P-.
Innihald: Tenuiorin, methylgyroforat, gyrofórinsýra og triterpensambönd.
Mjög algeng um allt land frá láglendi upp í 1300 m hæð.
Dílaskófin vex einkum yfir mosa á jarðvegi í mólendi, mögru graslendi, kjarri og fjallshlíðum.